Toppliðið vissi að það gæti aukið forystuna enn frekar með sigri þar sem Chelsea spilaði ekki í deildinni um helgina. Liðið mætti Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu og féll úr leik.
Það tók Man City sinn tíma að brjóta niður Bristol City en Mary Fowler kom City á endanum yfir þegar 62 mínútur voru á klukkunni. Þegar stundarfjórðungur lifði leiks gulltryggði Fowler sigurinn með öðru marki gestanna.
Aðeins tveimur mínútum síðar varð Amy Rogers fyrir því óláni að skora sjálfsmark og leikurinn endanlega búinn. Þegar níu mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma bætti Alex Greenwood við fjórða marki Man City. Reyndist það síðasta mark leiksins og unnu gestirnir 4-0 sigur.
Fyrr í dag hafði Ella Toone tryggt Manchester United 1-0 útisigur á Leicester City. María Þórisdóttir lék allan leikinn í 1-1 jafntefli Brighton & Hove Albion við Tottenham Hotspur.
Tooney's magic secures all three points on the road! 👏#MUWomen pic.twitter.com/NJzysCotaF
— Manchester United Women (@ManUtdWomen) April 28, 2024
Dagný Brynjarsdóttir lék ekki með West Ham United þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Aston Villa og þá náði Arsenal aðeins í stig gegn Everton, lokatölur þar einnig 1-1.
Man City er á toppnum með 52 stig þegar liðið á tvo leiki eftir, gegn Arsenal og Aston Villa. Chelsea er sex stigum eftir á en á tvo leiki til góða og því fjóra leiki eftir. Chelsea á eftir að mæta Liverpool, Bristol City, Tottenham og Man United.
Man City er sem stendur með sex mörk í plús á Chelsea en ef bæði lið vinna sína leiki til enda tímabils er ljóst að markatalan mun skera úr um hvort þeirra verður meistari. Arsenal hefur þegar tryggt sér 3. sætið og þar með sæti í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á næstu leiktíð. Skytturnar með 44 stig, níu stigum meira en Man United sem er sæti neðar.