Real Madríd vann fyrr í dag öruggan 3-0 sigur á Cádiz og því þurfti Barcelona á sigri að halda til að fresta fagnaðarhöldum Real-liðsins sem átti titilinn þó vísan. Það virðist sem Börsungar hafi verið á þeim buxunum að láta hvítklædda Real-menn bíða örlítið lengur en Andreas Christensen kom gestunum yfir strax á 3. mínútu leiksins.
Það tók Girona þó aðeins tæpa mínútu að jafna metin, það gerði Artem Dovbyk og staðan jöfn 1-1 þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar af leiknum.
Gestirnir höfðu nælt sér í þrjú gul spjöld áður en heimamenn gerðust brotlegir innan eigin vítateigs undir lok fyrri hálfleiks. Niðurstaðan var vítaspyrna sem Robert Lewandowski skoraði úr, staðan 1-2 í hálfleik.
Það var svo um miðbik síðari hálfleiks sem heimamenn sneru leiknum algjörlega við. Portu kom inn af bekknum og gerbreytti leiknum. Hann jafnaði metin á sömu mínútu og hann kom inn á eftir undirbúning Dovbyk á 65. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar lagði Portu boltann á Miguel Gutiérrez og staðan orðin 3-2 Girona í vil.
Á 74. mínútu var Portu svo aftur á ferðinni með sitt annað mark í leiknum og staðan orðin 4-2. Reyndust það lokatölur og gríðarleg fagnaðarlæti brutust út hjá heimaliðinu sem og víðsvegar um Madríd.
👋 @ChampionsLeague ✨ pic.twitter.com/4xKHOHkqDk
— Girona FC (@GironaFC) May 4, 2024
🙌 WE ARE THE LALIGA 2023/24 CHAMPIONS! 🙌 pic.twitter.com/Yo5QFw3SUO
— Real Madrid C.F. 🇬🇧🇺🇸 (@realmadriden) May 4, 2024
Þegar 34 umferðir eru búnar í La Liga er Real Madríd orðið Spánarmeistari með 87 stig. Þar á eftir kemur Girona með 74 stig, Barcelona með 73 og Atlético Madríd með 67 stig.