Sendinefndir frá Katar, Egyptalandi og Bandaríkjunum funda nú með fulltrúum Hamas og freista þess að binda enda á átökin sem geisað hafa í sjö mánuði. Viðræðurnar virðast stranda á því hvort vopnahléð verði tímabundið eða ekki. Hamasliðar krefjast ótímabundins vopnahlés en Netanjahú segir Ísrael ekki geta gengist við því.
„Við getum ekki samþykkt ástand þar sem herdeildir Hamas klifra neðan úr byrgjunum sínum, ná aftur valdi á Gasa, byggja upp hernaðarinnviði sína og ógna ísraelskum borgurum í nærliggjandi samfélögum, borgum suðursins og öllum landshlutum á nýjan leik,“ segir Netanjahú.
„Ísrael mun ekki gangast við kröfum Hamas,“ bætir hann við.
Samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins felur sá samningur sem rætt er um í Kaíró í sér fjörutíu daga hlé á átökum til að hægt sé að sleppa gíslum og að Ísraelsmenn láti lausa Palestínumenn í ísraelskum fangelsum.
„Að gangast við kröfum Hamasliða yrði hræðilegur ósigur fyrir Ísrael. Það yrði stórsigur fyrir Hamas, Íran og allt hið illa,“ segir Netanjahú.