„Þetta er léttir. Frammistaðan var hrikalega flott, sérstaklega eftir að við urðum einum færri,“ sagði Arnar í leikslok.
„Mér fannst við skapa mun hættulegri færi en Blikarnir og ég er bara ánægður að sigla þessu heim eftir að lenda í enn einum leiknum þar sem er verið henda okkur út af fyrir litlar sakir. Mér finnst í rauninni ótrúlegt að þessir fjórðu dómarar séu farnir að stjórna leikjum. Þetta er gjörsamlega galið.“
Þjálfarateymi Blika hafi æst upp í Adam Ægi
Hann hafði þó ekki lokið sér af í ræðu sinni um dómgæsluna.
„Þjálfari Breiðabliks er að biðja um að fá gult spjald á Adam Ægi og er mjög aggressívur við Gunnar [Odd Hafliðason, fjórða dómara]. Adam á einhver orðaskipti við þá og segir þeim í rauninni að hætta þessu fokking rugli og fyrir það fær hann gult spjald.“
„Hvert erum við komin? Hvað eru þeir að gera? Er þetta í lagi sem þeir eru að gera?“ spurði Arnar og átti þá við þjálfarateymi Breiðabliks.
„Ég bara spyr. Mér finnst þetta orðið algjört rugl hvert þetta er komið. Þessi spjaldalæti sem eru í gangi. Við erum búnir að fá að kynnast því á móti Stjörnunni og svo aftur hér og mér finnst þetta rosalega litlar sakir. Menn verða að átta sig á því að þarna eru orðaskipti við þjálfara Breiðabliks, sem eru mjög aggressívir. Ég hélt að það mætti bara einn standa á hliðarlínunni, en þeir eru tveir, og það er ekkert gert í því. Þeir komust upp með að æsa leikmann upp og hann segir eitthvað við þá og það er nóg til að fá gult spjald. Hvert erum við komin? Fyrir mér er þetta algjört rugl,“ sagði Arnar.
Sterkur karaktersigur
Þegar Arnar fór svo að einbeita sér að sjálfum leiknum hafði hann ýmislegt jákvætt að segja um sína menn.
„Það er mikill karakter í þessu liði og við sjáum bara karakterinn á móti Stjörnunni þar sem við áttum að jafna einum færri og vorum betri aðilinn í þeim leik. Ég held að við höfum fengið betri færi en Blikarnir hérna í seinni hálfleik og áttum að klára leikinn.“
„Lykilatriðið er að við kláruðum þetta og þetta eru virkilega mikilvæg stig fyrir okkur í þeirri stöðu sem við erum í. Svo þurfum við bara að safna kröftum og aðeins að njóta núna. Svo er nýr dagur á morgun og nýr leikur á laugardaginn þannig þetta er ekki meira en það,“ sagði Arnar að lokum.