Fótbolti

Segja Real renna hýru auga til miðju­manns Le­verku­sen

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gæti verið á leið til Real á næsta ári.
Gæti verið á leið til Real á næsta ári. EPA-EFE/CHRISTOPHER NEUNDORF

Það má reikna með að fjöldi leikmanna Þýskalandsmeistara Bayer Leverkusen verði eftirsóttur af stærstu og ríkustu knattspyrnufélögum Evrópu í sumar. Spánarmeistarar Real Madríd eru nú þegar með augastað á miðjumanni þýska félagsins en eru þó tilbúnir að bíða til næsta árs.

Hinn 21 árs gamli Florian Wirtz hefur verið algjör lykilmaður í liði Leverkusen sem gæti enn farið taplaust í gegnum tímabilið. Þessi sóknarþenkjandi miðjumaður hefur til þessa leikið 46 leiki í öllum keppnum, skorað 18 mörk og gefið 19 stoðsendingar.

Spænski fjölmiðillinn Marca segir að Real sé þegar byrjað að undirbúa kaup á leikmanninum sumarið 2025. Real hefur undanfarin ár ávallt skipulagt leikmannahóp sinn nokkur ár fram í tímann og nú er kominn tími til að finna næsta gimstein á annars öfluga miðju liðsins.

„Real er nú að vinna í því að fá Þjóðverjann í sínar raðir. Þetta er langtímamarkmið sem krefst mikils tíma, líkt og þegar það festi kaup á Jude Bellingham, Eduardo Camavinga og Aurélien Tchouaméni,“ segir í frétt Marca.

Það er næsta öruggt að Xabi Alonso muni stýra Leverkusen á næstu leiktíð en hann hefur verið orðaður við þjálfarastöðu Real Madríd þar sem Carlo Ancelotti verður þar ekki að eilífu enda orðinn 64 ára gamall. Það gæti því farið svo að Real sæki tvo máttarstólpa Leverkusen sumarið 2025.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×