Íslendingum sem taka inn lyf á borð við Ozempic, Saxenda og Wegovy hefur fjölgað um rúm sextíu prósent síðustu sextán mánuði. Sérfræðilæknir í meðferð offitu sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að lyfin væru kærkomin meðferð við sjúkdómnum offitu og henti mjög mörgum Íslendingum. Þá lýsa notendur lyfjanna sem fréttastofa hefur rætt við flestir jákvæðri reynslu og litlum aukaverkunum af þeim.
Berglind Soffía Ásbjörnsdóttir Blöndal, klínískur næringarfræðingur hjá Heilsugæslunni í Urðarhvarfi, segir hins vegar alls ekki alla svo heppna. Hún telur að um helmingur skjólstæðinga hennar sé á einhverjum áðurgreindra lyfja.
„Það eru nokkrir sem hafa þurft að hætta [á lyfjunum] út af aukaverkunum, ýmsum aukaverkunum. Sumir hafa verið með endalaus uppköst eða endalausan niðurgang og rosalegt lystarleysi. Sumir hafa upplifað það að fá garnalömun, það er náttúrulega hættulegt og þeir þurfa þá að leggjast inn á spítala og eru þá tekin af lyfinu. Eitthvað er um brisbólgu og svoleiðis lika en það er ekki mikið sem maður sér kannski innan heilsugæslunnar.“
Áhyggjur út frá næringarfræðinni
Berglind tekur sérstaklega fram að Ozempic til að mynda sé ágætt sykursýkislyf. En hún hefur áhyggjur af aukinni notkun lyfjanna til þyngdartaps, út frá næringarfræðilegu sjónarmiði.
„Þetta er lyf sem hægir á magatæmingu og minnkar fæðuinntekt og oft eru þau sem sækjast eftir því að léttast einnig fólk sem hefur farið í allskonar megranir og átök áður. Og er þegar að skerða við sig fæðuinntekt af því að það vill reyna að líta út eins og samfélagið segir að það eigi að líta út.“
Berglind segir erfitt að svara því hvort henni þyki íslenskir læknar skrifa of títt upp á lyfin.
„Ég held bara að það sé gríðarleg pressa á lækna frá skjólstæðingum að fara á þessi lyf. Og þeir eru klárlega læknar af því þeir vilja gera það besta fyrir fólkið sitt.“
Þá er áherslan á holdafar þegar kemur að heilsu fólks almennt of mikil, að mati Berglindar.
„Þannig að ef fókusinn væri ekki svona mikið á þyngd heldur á heilsueflandi venjur sem er auðvelt að breyta, þá myndi þetta kannski ekki vera svona mikið í gangi eins og raunin er.“