Ríkisútvarpið greindi frá því í gær að þrátt fyrir að til hafi staðið að utankjörfundaratkvæðagreiðsla til forseta Íslands færi fram milli ellefu og eitt að staðartíma í gær á Tenerife hafi margir þurft frá að hverfa sökum skorts á kjörseðlum.
Að sögn utanríkisráðuneytisins sé lagt mat á hversu margra kjörseðla sé þörf í aðdraganda hverra kosninga sem byggir meðal annars á fjölda kjósenda í fyrri kosningum. Þó virðist sem fjöldi Íslendinga sem dvelur nú á Spáni hafi verið vanmetinn.
Fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu sem var birt á heimasíðu þess í dag að það hafi þegar sent viðbótarkjörseðla í forgangi til hlutaðeigandi kjörræðismanna á Spáni. Einnig er starfsmaður ráðuneytisins á leiðinni til Kanaríeyja til að aðstoða við framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar.
Ræðismenn Íslands á Spáni hafa, í samráði við ráðuneytið, ákveðið að bjóða upp á sérstaka kjörfundi á suðurhluta Gran Canaría milli klukkan tíu og tvö á morgun og á suðurhluta Tenerife á fimmtudag, föstudag og laugardag milli klukkan tíu og tvö að staðartíma. Nánari staðsetningum kjörfundanna verði komið á framfæri á Facebook innan tíðar.
Auk þess verði áfram hægt að greiða utankjörfundaratkvæði á ræðisskrifstofum Íslands á Spáni á hefðbundnum opnunartíma.