Katrín mælist nú með 25,7 prósent, einu prósentustigi minna en í síðustu könnun Maskínu fyrir viku. Halla Tómasdóttir er áfram á siglingu upp á við og vermir nú annað sætið með 18,6 prósent, bætir við sig 3,7 prósentustigum frá síðustu könnun. Marktækur munur er hins vegar á fylgi hennar og Katrínar. Baldur Þórhallsson mælist með 18,2 prósent, bætir við sig tveimur prósentustigum.
Halla Hrund Logadóttir heldur áfram að tapa fylgi á milli kannana Maskínu. Hún mælist nú með 16,6 prósenta fylgi, tapar 5,2 prósentustigum frá síðustu könnun. Ekki er marktækur munur á fylgi Höllu Tómasdóttur, Baldurs og Höllu Hrundar.

Jón Gnarr er nánast með sama fylgi og í könnun Maskínu fyrir viku eða 12,4 prósent. Það sama á við um Arnar Þór Jónsson sem er með 5,4 prósent. Hinir sex frambjóðendurnir eru samanlagt með 3,1 prósent og hefur fylgi þeirra ekki breyst til neinna muna í könnunum Maskínu allt frá 8. apríl.
Það er fróðlegt að skoða þróun á fylgi efstu frambjóðenda í þeim sjö könnunum sem Maskína hefur gert. Katrín var með tæplega 33 prósenta fylgi hinn 8. apríl, aðeins minna í næstu könnun þar á eftir en hefur síðan verið á svipuðum slóðum með 25 til 27 prósent.

Baldur vermdi annað sætið til að byrja með en mælist nú með 8,5 prósentustigum minna fylgi en í fyrstu könnuninni. Hall Hrund tók hástökk í forystusætið hinn 26. apríl og hélt forystunni þar til hún tapaði miklu fylgi í síðustu könnun og áfram í könnun dagsins í dag. Hún hefur tapað 13,1 prósentustigi frá því fylgi hennar var mest í 29,7 prósentum hinn 8. maí.
Jón Gnarr hélt lengi þriðja sætinu prósentulega séð. Hann hefur misst 7,2 prósentustig frá fyrstu könnun Maskínu og er nú í fjórða sæti.
Halla Tómasdóttir hefur hins vegar bætt við sig miklu fylgi. Tæplega þrefaldaði það í síðustu könnun og bætir um betur í dag. Það er þó rétt að árétta að ekki er marktækur munur á henni, Baldri og Höllu Hrund sem má segja að séu saman í öðru til fjórða sæti.