Hér erum við að tala um Eldstó á Hvolsvelli, sem er kaffihús, veitingastaður og leirkerasmiðja, sem þau Þór Sveinsson, leirkerasmiður og Helga Ingadóttir, leirlistakona eiga og hafa rekið myndarlega síðustu 20 ár en Eldstó er við þjóðveg númer eitt þegar ekið er í gegnum Hvolsvöll.
Helga ætlar varla að trúa því að það séu komin 20 ár frá því að Eldstó var opnað en Póstur- og sími var áður með starfsemi í húsinu.
Er þetta ekki eina kaffihúsið á Hvolsvelli eða hvað?
„Jú ég myndi segja eina svona alvöru kaffihúsið þar sem við erum ekki bara með handgert kaffi heldur líka handgerða bolla, þannig að þetta er mjög persónulegt,” segir Helga.

Helga segir að reksturinn hafi gengið upp og ofan í þessi 20 ár en að þau hafi neitað að gefast upp og ætli að reka staðinn eins lengi og þau hafi orku og gaman af.
„Þetta er mjög gaman þegar nóg er að gera og svo verður maður auðvitað pínu útbrunnin á haustin og svo fyllist maður eldmóði þegar maður fer í gang aftur eftir áramótin,” segir Helga hlæjandi.

Þið ætlið að bjóða fólki að koma í kaffi og kökur og flottheit á morgun?
„Já, já, milli 15:00 og 17:00 á sunnudaginn en þá erum við með kaffi og köku eða tertu í boði Eldstóar fyrir gesti og gangandi.”
Og Helga, sem er líka söngkona ætlar að syngja fyrir gesti í afmælinu með hljómsveit sinni kantrý og blúslög, ásamt þjóðlögum og fleira.
„Já, já, maður verður að hafa gaman,” segir Helga og hlær enn meira.
