Nú þegar fjórir dagar eru til forsetakosninga er undirbúningur í fullum gangi um allt land. Til að mynda er búið að setja upp kjörklefa í Ráðhúsinu í Reykjavík. En það er að mörgu öðru að hyggja þegar boðað er til kosninga.

Helga Laxdal skrifstofustjóri borgarstjórnar fer fyrir undirbúningnum í Ráðhúsinu. Borgarstjórnarsalurinn var undirlagður af alls kyns kössum og gögnum þegar okkur bar að garði í dag.
„Hérna erum við bara að undirbúa kjördag. Hér er verið að pakka niður kjörgögnum fyrir alla 25 kjörstaði Reykjavíkurborgar. Við kjósum í 90+ kjördeildum í ár,“ segir Helga pollróleg þótt stutt sé í kosningar enda með hóp af vönu fólki með sér.
Í kassana væru sett nauðsynleg gögn eins og kjörskrá, skannar fyrir stafræn ökuskírteini, blíantar, innsigli, eyðublöð og ýmis sérmerkt umslög undir gögn. Þá fjölgar kjörstöðum um einn með tilkomu Fossvogsskóla. Íbúar í Fossvogi kjósa þar í stað Breiðagerðisskóla áður.

Helga segir mikinn fjölda fólks koma að undirbúningi og framkvæmd kosninganna.
„Það er mjög mikið af fólki. Við ráðum nokkur hundruð manns sem starfa á kjörstöðunum. Svo er þetta endalaust af starfsfólki Reykjavíkurborgar sem er að hjálpa til. Við erum með bílstjóra, náttúrlega allt umhverfis- og skipulagssvið sem skiltar og setur upp kjörstaðina sjálfa, alla kjörklefana. Þetta er risaframkvæmd,” segir skrifstofustjórinn.

Talið verður aðskilið frá Reykjavíkurkjördæmum norður og suður í Laugardalshöll. Fólki er heimilt að fylgjast með talningunni á staðnum og streymt verður frá henni. Byrjað verður að telja strax eftir að kjörstöðum hefur verið lokað klukkan tíu. Þá bíða allir í ofvæni eftir fyrstu tölum frá Reykjavík en gætu þurft að bíða nokkuð eftir þeim.
„Við byrjum að flokka atkvæðin í innsigluðum sal. En við byrjum að telja klukkan tíu og gerum ráð fyrir að vera búin að telja 60 prósent atkvæða þegar við komum með fyrstu tölur um miðnætti,” segir Helga Laxdal.
Fyrstu tölur ættu að gefa nokkuð góða mynd af úrslitunum í Reykjavík. Hins vegar værir áætlað að talningu verði ekki að fullu lokið fyrr en um klukkan fjögur á sunnudagsmorgun.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram í öllum kjördæmum landsins sem og í sendiráðum og hjá kjörræðismönnum Íslands víða um heim. Á höfuðborgarsvæðinu fer atkvæðagreiðslan fram í Holtagörðum 1, þar sem Bónus var áður með verslun, til klukkan tíu á kvöldin. Þar verður einnig opið á kjördag til klukkan 17:00.

Sigríður Kristinsdóttir sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu segir kjörsókn öllu dræmari nú en fyrir forsetakosningarnar 2020. Nú síðdegis höfðu 22.119 kosið á landinu öllu og í sendiráðum, en fjórum dögum fyrir síðustu forsetakosningar höfðu 33.643 kosið. Síðdegis í dag höfðu 14.085 kosið á höfuðborgarsvæðinu á móti 25.700 á sama tíma fyrir kosningarnar 2020.