Í liði Álaborgar er nefnilega danska súperstjarnan Mikkel Hansen sem er á kveðjutímabili sínu. Pressan er á hans liði enda hefur Fredericia komið mörgum á óvart með frábærri frammistöðu. Fredericia vann leikinn í gær 31-30.
„Við vorum ekki nógu góðir í dag. Við áttum nokkrum sinnum möguleika á því að komast þremur til fjórum mörkum yfir og ná meiri stjórn á leiknum,“ sagði Mikkel Hansen við TV2.
„Við þurfum bara að vera hreinskilnir við sjálfa okkur og horfa inn á við. Af hverju náðum við ekki að nýta þessa stöðu og skora þetta aukamark? Við náðum aldrei þeirri ró í leikinn sem við áttum möguleika á því að ná,“ sagði Hansen.
Hansen ætlar að leggja skóna á hilluna í sumar og Guðmundur og félagar geta komið í veg fyrir að hann endi sem danskur meistari. Úrslitaleikurinn í Álaborg á laugardaginn verður hans síðasti leikur með félagsliði.
„Við verðum að gera betur en í síðasta leik. Við þurfum að horfa í spegilinn og það er okkur að kenna að við unnum ekki. Ekkert hefur breyst. Við verðum bara að vinna næsta leik og þá verðum við meistarar,“ sagði Hansen.