Tímabilið hjá lærisveinum Xabi Alonso í Bayer Leverkusen var svo gott sem ein stór sigurganga. Liðið vann tvöfaldan sigur í Þýskalandi þar sem liðið tapaði hvorki í deild né bikar. Í Evrópudeildinni fór liðið síðan alla leið í úrslitaleikinn þar sem liðið tapaði eina leiknum á tímabilinu gegn ítalska liðinu Atalanta.
Það skal því engan undra að einhverjir leikmanna félagsins séu eftirsóttir víðsvegar um Evrópu. Það er þekkt saga að stórlið Bayern Munchen sæki þá leikmenn innanlands sem það vill og það gæti gerst í þetta skiptið núna.
Samkvæmt Sky er lið Bayern Munchen mjög áhugsamt um varnarmanninn Jonathan Tah sem leikið hefur 353 leiki fyrir Leverkusen á sínum ferli. Miðvörðurinn átti mjög gott tímabil fyrir meistarana og samkvæmt blaðamanninum Florian Plettenberg er Tah búinn að ná munnlegu samkomulagi við Bayern.
Samningur Tah við Leverkusen rennur út næsta sumar og félagið gæti því freistast til að selja hann núna til að fá einhvern aur í kassann. Búist er við að Tah verði í byrjunarliði Þjóðverja á EM á heimavelli í sumar.
Bayern lauk keppni í 3. sæti í þýsku deildinni en liðið hafði fyrir tímabilið unnið þýska meistaratitilinn ellefu ár í röð.