England lagði Bosníu-Hersegóvínu 3-0 á dögunum en sá leikur fór fram á St. James‘ Park í Newcastle. Þar má segja að Gareth Southgate, þjálfari Englands, hafi stillt upp hálfgerðu B-liði en talið er að nær allar stjörnur liðsins verði með gegn Íslandi. Á sama tíma er talsvert um forföll í íslenska liðinu.
Ásamt því að mæta Kyle Walker, Declan Rice, Jude Bellingham, Phil Foden, Bukayo Saka, Harry Kane og öllum hinum þá þurfa strákarnir okkar að glíma við troðfullan Wembley en uppselt er á leikinn sem fram fer á morgun, föstudag.
Um er að ræða einn frægasta leikvang sögunnar en gríðarlegar endurbætur voru gerðar á honum fyrr á þessari öld og tekur hann nú 90 þúsund manns í sæti. Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fór nýverið fram á vellinum en þar vann Real Madríd 2-0 sigur á Borussia Dortmund.
Fótbolt.net greindi frá því að alls verði 600 Íslendingar á leiknum og vonandi sitja þau öll saman svo þau geti reynt að láta í sér heyra gegn þeim 89.400 Englendingum sem verða á vellinum.
Friday's pre-#EURO2024 fixture against Iceland at @wembleystadium has now sold out.
— England (@England) June 2, 2024
Thank you for your excellent support! 👏 pic.twitter.com/7ZiqFl15LS
England mætir Íslandi á föstudag, 7. júní, í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst klukkan 18.15 og leikurinn hálftíma síðar kl. 18.45.