Nokkur ár eru liðin síðan nokkrir íslenskri kaupsýslumenn hófu netverslun með áfengi. Síðan þá hefur ágreiningur verið uppi um lögmæti umræddrar áfengissölu. Sumir segja hana vera skýrt brot á íslenskri áfengislöggjöf á meðan aðrir segja að salan sé heimil á grundvelli EES-samningsins. Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd vill skera úr um lögmæti sölunnar. Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður nefndarinnar.
„Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hóf á fundi sínum í morgun frumkvæðisathugun vegna netsölu áfengis. Við fengum dómsmálaráðherra á okkar fund en frumkvæðisathugunin krefst þess að við fáum fleiri gesti og öflum gagna þannig að þetta var fyrsta skrefið í morgun“
Þórunn var spurð hvers vegna nefndin hefði farið af stað með athugunina.
„Það eru ítrekaðar ábendingar um að netsala áfengis fari fram í lagalegu tómarúmi. Einhverjir hafa orðað það þannig. Við viljum auðvitað ganga úr skugga um að hér fari allt fram eins og það á að vera en það eru margar hliðar á þessu máli og það liggur fyrir að það hafa verið kynnt í samráðsgátt frumvörp frá ráðherra dómsmála um að skýra umgjörð og lagalega umgjörð netsölunnar. Þetta er það sem við erum að kanna. Við höfum fengið ábendingar meðal annars frá forvarnarsamtökum og öðrum sem hafa áhyggjur af áhrifum áfengissölu á lýðheilsu þannig að þetta er allt saman undir í þessari könnun.“
Hvenær gætum við vænst þess að fá einhvers konar niðurstöðu?
„Það er ekki gott að segja. Þingið verður komið í sumarhlé eftir einar tvær vikur og ég geri allt eins ráð fyrir því að við tökum þráðinn upp aftur að því loknu þannig að við vinnum þetta áfram inn í nýjan þingvetur.“