Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum Skúla Margeirs. Þar segir að Skúli hafi fæðst þann fæddist 3. september árið 1948. Skúli hafi alist upp á Fáskrúðsfirði og þrátt fyrir að hafa lengst af búið á höfuðborgarsvæðinu hafi hann keppt undir merkjum Leiknis og UÍA.
Hann hafi hafið að æfa lyftingar seint á sjöunda áratugnum. Hann hafi keppt á sínu fyrsta móti 1970 og sett næstu árin hvert Íslandsmetið á fætur öðru. Skúli hafi einnig keppt á alþjóðlegum lyftingamótum og náð silfri í léttvigtarflokki á heimsmeistaramótinu árið 1978 í Turku í Finnlandi.
Það ár hafi hann verið kjörinn Íþróttamaður ársins, fyrstur allra kraftlyftingamanna. Árið 1980 hafi hann sett heimsmet í réttstöðulyftu þegar hann lyfti 315,5 kílóum í 75 kílóa flokki. Það ár hafi hann verið kjörinn Íþróttamaður ársins í annað skipti.
Skúli hafi að auki unnið tvenn bronsverðlaun á HM, þrjá Norðurlandameistaratitla og fjölmarga titla innanlands. Skúli hafi verið þjóðþekktur fyrir afrek sín en ekki síður vakið athygli fyrir hnyttin tilsvör og líflega framkomu á mótum. Skúli hafi verið sæmdur gullmerki KRAFT 2016 og útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2017.
Skúli lætur eftir sig eiginkonu, dóttur, tvær stjúpdætur og átta barnabörn.