Erlent

Tala látinna í Dagestan hækkar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Reykjarmökkur stígur upp í Makhachkala. Kveikt var í sýnagógum og kirkjum.
Reykjarmökkur stígur upp í Makhachkala. Kveikt var í sýnagógum og kirkjum. AP/GOLOS DAGESTANA

Minnst 15 lögreglumenn og fjöldi almennra borgara féllu í skotárásum á kirkjur og sýnagógur í Dagestan í Rússlandi í gær.

Árásirnar voru gerðar í borgunum Derbent og Makhachkala í fylkinu Dagestan við Kaspíahaf. Eftir að hafa hafið skothríðir í kirkjum og sýnagógum kveiktu árásarmennirnir í þeim. RIA Novosti, rússneskur ríkismiðill, birti í gær myndefni á Telegram sem sýnir sýnagóguna í Derbent standa í ljósum logum. Sýnagógan og kirkja brunnu til kaldra kola í kjölfar árásarinnar.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu eru sex árásarmannanna fallnir, en fleiri er enn leitað. Kennsl hafa ekki verið borin á árásarmennina, en nokkuð hefur verið um árásir herskárra íslamista í Dagestan í áranna rás. 

Sergei Melikov, fylkisstjóri í Dagestan, segir minnst 15 lögreglumenn hafa fallið í árásunum og fjölda almennra borgara hafa týnt lífi í árásunum. Hann hefur lýst yfir þriggja daga sorgartímabili í fylkinu sem hófst í dag.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×