„Ég er búinn að vita hvað til stóð og er búinn að vera að vinna að þessu þannig þetta kemur ekki beinlínis á óvart, en gleðidagur engu að síður. Að loksins að koma manninum út úr fangelsi og á leið til frelsis og að sameinast fjölskyldu sinni, Stellu og strákunum tveimur, í fyrsta skipti sem frjáls maður.“
Kristinn bendir á að í fjórtán ár hafi Assange verið frelsissviptur með einum eða öðrum hætti. Fyrst sem diplómatískur flóttamaður í sendiráði Ekvador, í stofufangelsi í sveit í London og svo í 1.901 dag í Belmarsh-fangelsi í London í Bretlandi.
„Þetta er lausn sem er búin að vera í bígerð í töluverðan tíma en loks náðist að negla þetta saman og hann er á ferð til frelsis í Ástralíu.“
Fram kom í fréttum í morgun að Assange hefði náð samkomulagi við yfirvöld í Bandaríkjunum um að gangast undir dómsátt þar sem hann mun játa sök í njósnamáli á hendur honum, en ekki sitja í fangelsi.
Hann á að mæta fyrir dómara á Norður-Maróinaeyjum í Norðvestur Kyrrahafi, sem eru undir stjórn Bandaríkjanna. Síðastliðin fimm ár hefur Assange dvalið í fangelsi í Bretlandi og reynt að forðast það að verða framseldur til Bandaríkjanna. Hann mun hafa farið fram á það að mæta fyrir dómara annars staðar en á meginlandi Bandaríkjanna.
Assange er ákærður fyrir að afla sér og dreifa leynilegum upplýsingum um stríð Bandaríkjanna í Írak og Afganistan. Bandarísk stjórnvöld vilja meina að háttsemin hafi komið fólki í lífshættu.
Hægt að greina frá innihaldi á morgun
Kristinn segist, vegna sérstaka aðstæðna og samkvæmt samkomulagi við lögmenn, ekki geta tjáð sig um innihald dómssáttarinnar fyrr en á morgun.
„Það má bíða til morguns þar sem við getum farið að greina í smáatriðunum nákvæmlega hvað í þessu felst. Gleðitíðindi dagsins eru þau að það sé búið að ná honum út og það sé búið að ná samningi um það og er á leið til frelsis.“
Sigur í maí
Kristinn segir þetta samkomulag koma í kjölfar sigurs Assange í réttarsal í Bretlandi þegar hann fékk leyfi til áfrýjunar í framsalsmálinu, með tilvísun í réttarfarsnefnd á grundvelli fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar.
„Sem snýr meðal annars að frjálsri blaðamennsku. Þá verða vatnaskil og ekki er að undra að við erum hér nokkrum mánuðum síðar í þessum sporum í dag.“
Kristinn er í stöðugu sambandi við Assange en segist ætla að bíða aðeins með að fara út til að hitta hann.
„Ég leyfi honum að jafna sig. Við erum í góðu sambandi og höldum því áfram,“ segir Kristinn sem fagnar afmæli sínu í dag og segir þetta einn ánægjulegasta afmælisdag sem hann hefur átt lengi.