Mótmælendur segjast hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu lögreglu og hafa nú höfðað mál á hendur ríkinu.
„Hópurinn byggir á því að með aðgerðum sínum hafi lögregla með ólögmætum hætti skert tjáningar- og fundafrelsi þeirra og með því vegið að rétti þeirra til stjórnarskrárvarinnar þátttöku í lýðræðislegri umræðu um stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum þjóðarmorðs Ísraelshers á íbúum Gaza,“ segir Oddur Ástráðsson lögmaður hópsins.
Fjölmiðlar hafa fjallað um atburðinn og ræddi Vísir meðal annars við Pétur Eggerz um atvik sem tengist 17. júní en Pétur heldur því fram að lögreglan sé orðin miklu herskárri en hún hefur verið. Hann sagði atburðina frá 31. maí vel „documenteraða“ og boðaði málsókn. Sem nú er raunin.
Oddur segir að aðgerðir lögreglunnar hafi verið úr öllu hófi miðað við tilefnið, en mótmælin segir hann hafa verið friðsöm.
„Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og ríkinu veittur frestur til að skila greinargerð í málinu,“ segir lögmaðurinn.
Daníel Þór Bjarnason er einn þessara níu en hann fékk piparúða í augun og eymsl í kjölfarið. Hann sagði reiði ríkjandi meðal þeirra sem mótmæltu en þeir væru líka í sjokki.
„Það er besta orðið yfir það, sjokk. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því. Það að stjórnvöld séu að beita sér með þessum hætti gerir þetta þyngra og það sem ég finn er að fólk ætlar ekki að láta þagga niður í sér. Fólk ætlar að halda áfram að mæta og segja sína skoðun,“ segir Daníel í samtali við fréttastofu.
Á hinn bóginn ber að líta til þess að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu telur engar vísbendingar uppi um mögulega refsiverða eða ámælisverða háttsemi starfsmanna lögreglu við mótmælin í Skuggasundi í síðasta mánuði. Lögregla er sögð hafa gætt meðalhófs í aðgerðum sínum.
Fréttin hefur verið uppfærð.