Innlent

Einn al­var­lega slasaður eftir slysið

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Slysið átti sér stað á Holtavörðuheiði síðdegis í gær.
Slysið átti sér stað á Holtavörðuheiði síðdegis í gær. vísir

Einn er alvarlega slasaður eftir bílslys sem varð á Holtavörðuheiði síðdegis í gær þegar tveir bílar sem komu úr gagnstæðri átt skullu saman.

Birgir Jónasson lögreglustjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra staðfestir þetta í samtali við fréttastofu, en mbl.is greindi fyrst frá. Slysið átti sér stað klukkan fjögur í gær.

Ökumaður annars bílsins var fluttur fyrstur af vettvangi með þyrlu Landhelgisgæslunnar, eftir að hafa verið klipptur út úr bílnum. Birgir kveðst ekki geta staðfest að svo stöddu hvort ökumaðurinn sé sá sem hafi hlotið alvarlega áverka.

Fimm til viðbótar voru fluttir slasaðir með þyrlu af vettvangi. Einn var fluttur með bifreið með minniháttar meiðsl.

„Það eru minni slys á því fólki, en mismikil þó,“ segir Birgir. 

Alls voru því sjö manns í bílunum tveimur sem skullu saman. Annars vegar fimm manna fjölskylda og hins vegar ökumaður og barn.

Birgir segir mikla umferð hafa verið á veginum á þeim tíma sem slysið varð. 

„Þetta eru tiltölulega þröngir vegir og mikið um stóra bíla með eftirvagna. Það er ansi þétt umferð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×