Enski boltinn

Ten Hag hundfúll eftir tap fyrir Rosenborg: „Það eru kröfur hjá United“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag á hliðarlínunni á Lerkendal vellinum í gær.
Erik ten Hag á hliðarlínunni á Lerkendal vellinum í gær. getty/Ash Donelon

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, var langt frá því að vera sáttur eftir tap sinna manna fyrir Rosenborg, 1-0, í æfingaleik í Þrándheimi í gær.

Rosenborg var sterkari aðilinn í leiknum og átti meðal annars fjögur skot í tréverkið áður en Noah Holm skoraði sigurmark liðsins í uppbótartíma.

Ten Hag tefldi fram nokkuð sterku byrjunarliði en gerði ellefu breytingar í hálfleik. Hann húðskammaði sína menn eftir leikinn.

„Úrslitin eru ekki afgangsstærð. Við erum á undirbúningstímabili en það eru kröfur hjá Manchester United. Þú vinnur leiki en tapar þeim ekki. Ef þú getur ekki unnið leiki, ekki tapa þeim eins og við gerðum á síðustu sekúndunni,“ sagði Ten Hag.

„Frammistaðan er mikilvægari og hún var undir okkar kröfum,“ bætti Hollendingurinn við.

Ten Hag hrósaði markverðinum unga, Radek Vitek, fyrir frammistöðu hans í leiknum en fannst samherjar hans ekki verja mark United nógu vel.

„Liðið gaf honum tækifæri til að eiga nokkrar mjög góðar vörslur því frammistaða okkar sem lið var ekki nálægt því nógu góð,“ sagði Ten Hag.

Næsti leikur United er gegn Rangers í Edinborg á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×