Stirling Albion tók á móti B-deildarliði Raith Rovers síðastliðinn laugardag í fyrstu umferð H-riðils skosku deildarbikarkeppninnar.
Gestirnir í Raith Rovers voru 2-0 yfir í hálfleik eftir tvö mörk frá Aidan Connolly. Áður en Connolly fullkomnaði þrennuna á 66. mínútu þurfti þó að gera stutt hlé á leiknum þar sem markvörður heimamanna, Derek Gaston, hafði uppgötvað holu á vellinum, inni í hans eigin vítateig.
Gaston bað dómara leiksins að stöðva leikinn og sýndi honum holuna, enda getur slíkt hreinlega reynst hættulegt.
Það var svo Gaston sjálfur sem fann lausn á málinu. Við hlið vallarins var stærðarinnar sandhrúga og þar lá skófla. Gaston hljóp sjálfur og sótti eitt skóflufylli af sandi, sem reyndist nóg til að fylla upp í holuna og forða þannig leikmönnum frá því að slasa sig. Reyndar var ekkert skaft á skóflunni, en eins og sjá má að meðfylgjandi myndbandi lét Gaston það ekki stöðva sig.
Gestirnir í Raith Rovers unnu að lokum 3-0 sigur og eru því með þrjú stig eftir einn leik í H-riðli skosku deildarbikarkeppninnar, en Stirling Albion er án stiga.