Enski boltinn

Vill frekar fara upp um deild en að vinna til Emmy-verð­launa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rob McElhenney og Ryan Reynolds.
Rob McElhenney og Ryan Reynolds. Simon Stacpoole/Getty Images

„Upp um deild, ekki spurning,“ sagði Rob McElhenney aðspurður hvort hann vildi vinna til Emmy-verðlauna eða sjá lið sitt, Wrexham, fara upp um deild þriðja árið í röð.

Heimildaþættirnir Welcome to Wrexham fjalla um fótboltaliðið Wrexham í kjölfar þess að leikararnir Rob McElhenney og Ryan Reynolds keyptu félagið.

Síðan þá hefur uppgangur þess, sem og bæjarins Wrexham, verið ótrúlegur. Þættirnir eru tilnefndir til Emmy-verðlauna en Rob vill frekar sjá liðið fara upp um deild og spila í ensku B-deildinni að ári.

„Bæði eru atvinna mín og bæði eru eitthvað sem ég geri af ástríðu. Auðvitað vill ég að fólkið bakvið heimildaþættina fái þá viðurkenningu sem það á skilið. En ég held að þau myndu sömuleiðis velja það að liðið færi aftur upp um deild,“ sagði Rob í myndskeiði sem birtist á vef BBC, breska ríkisútvarpsins.

„Það hefur verið erfitt til þessa og verður bara erfiðara og erfiðara,“ sagði McElhenney er blaðamaður benti honum góðfúslega á að Wrexham ætti í raun ekki mikla möguleika á að fara upp um deild í ár.

„Það besta sem við Ryan getum gert er að fjárfesta í þjálfaranum okkar Phil (Parkinson), fjárfesta í innviðum bæjarins og félagsins, byggja upp akademíu félagsins, reynt að gefa Phil alla þá leikmenn sem hann vill og gefa því tækifæri (að fara upp um deild),“ sagði annar af eigendum Wrexham að endingu brosandi.

Wrexham hefur leik í League 1, ensku C-deildinni, þann 10. ágúst næstkomandi þegar Wycombe Wanderers koma í heimsókn á STōK Cae Ras-völlinn í Wrexham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×