Um stóra stund er að ræða fyrir St. Mirren en þetta er í fyrsta sinn í rúm þrjátíu og sex ár sem félagið tekur þátt í Evrópukeppni.
Guðmundur er fyrrum leikmaður St. Mirren. Hann varð markakóngur félagsins þrjú tímabil í röð á árunum 1989-1992 og er í miklum metum hjá stuðningsmönnum félagsins.
Guðmundur mætir á Hlíðarenda í kvöld og fylgist með sínu gamla félagi hefja vegferð sína í Evrópukeppni þetta tímabilið.
„Það er bara gaman að þessu,“ segir Guðmundur aðspurður um það hvernig Íslandsreisa St. Mirren horfi við honum. „Menn hjá St. Mirren hafa beðið eftir þessari stund í fjöldamörg ár. Það var kominn tími á þetta. Þetta er mjög stór stund fyrir félagið því eftir marga áratuga bið er það komið aftur í Evrópukeppni. Það verður bara spennandi að sjá og gaman að fylgjast með þessu í kvöld. Hvernig þeir standa sig á móti Valsmönnum.“
Það var árið 1989 sem Guðmundur var keyptur til St. Mirren frá austurríska liðinu Rapid Vín. Óhætt er að segja að í Skotlandi hafi upplifað góða tíma og raðað inn mörkum og markað sér sess í sögu St. Mirren.

„Þetta voru frábærir tímar á mínum ferli. Liðin nokkur ár síðan þá en það er alltaf gaman að sjá þegar minnst er á gamla félagið. Þetta var og er fjölskylduklúbbur og virkilega gaman að liðið sé komið hingað til lands að spila við Val.“
Ákveðnar hindranir voru til staðar á þeim tíma sem Guðmundur gekk til liðs við St. Mirren því kvóti var á fjölda erlendra leikmanna hjá hverju félagi.
„Það máttu bara vera tveir erlendir leikmenn á mála hjá hverju liði í Skotlandi. Þegar að ég var á mála hjá félaginu var leikmannhópurinn skipaður þrettán leikmönnum. Það var erfitt fyrir unga menn að fara erlendis að semja við lið og keppa þar.

Hann ber stuðningsmönnum liðsins góða sögu en þeir eru mættir hingað til Reykjavíkur í hundraðatali til að styðja sína menn áfram í leiknum gegn Val í kvöld.
„Skoskir áhangendur eru engum líkir. Stuðningsmenn St. Mirren eru ekki undanskildir því og breytir engu hvort um er að ræða leiki skoska landsliðsins eða félagsins, heima eða að heiman, þeir mæta alltaf og styðja sína menn.“
Hvar stendur þú í kvöld. Ertu Vals megin eða St. Mirren megin?
„Maður vill náttúrulega alltaf hafa íslensku liðin í forgrunni. Vill þeim vel. En auðvitað slær hjartað alltaf með gamla félaginu líka. Það er alltaf erfitt þegar að svona er en maður heldur náttúrulega bara með íslenskri knattspyrnu.“