Sport

Misstu af syninum vinna Ólympíu­verð­laun af því að þau keyptu ranga miða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Lindgren fagnar Ólympíusilfri sínu en foreldrar hans misstu því miður af keppninni.
Victor Lindgren fagnar Ólympíusilfri sínu en foreldrar hans misstu því miður af keppninni. Getty/Charles McQuillan

Sænski skotíþróttamaðurinn Victor Lindgren vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í París í gær en hrakfarir foreldra hans vöktu líka athygli.

Lindgren varð í öðru sæti í keppni með riffli af tíu metra færi. Gullverðlaunin fóru til Kínverjans Sheng Lihao og bronsið til Króatans Miran Maricic. Sá kínverski er aðeins nítján ára gamall en Króatinn var reynsluboltinn á verðlaunapallinum enda orðinn 27 ára.

Lindgren er nefnilega aðeins 21 árs gamall og að keppa á sínum fyrstu Ólympíuleikum. Hann varð aðeins sjötti í undankeppninni en nýtti skotin sín vel þegar allt var undir í úrslitunum.

Lindgren brosti líka út að eyrum þegar sænskir fjölmiðlar ræddu við hann eftir keppnina. Hann hrósaði foreldrum sínum fyrir stuðninginn en þá kom í ljós að þeir voru vissulega í París en misstu af keppninni hans.

Móðir hans sagði síðan hálf vandræðaleg frá ástæðunni fyrir því. Foreldrarnir keyptu vissulega fjóra miða og héldu að þau væri að kaupa miða á keppni sonarins. Svo kom í ljós að þetta voru miðar á allt aðra keppni.

„Við vorum svo glöð í gær af því að við náðum fjórum miðum. Vandamálið var bara að það var fyrir keppni í leirdúfuskotfmi,“ sagði Ulrika, móðir hans, og hló. Strákurinn notar riffill í sinni keppni en ekki haglabyssu.

Miðarnir voru því í keppni í Leirdúfuskotfimi á föstudaginn en í þeirri keppni keppir einmitt Íslendingurinn Hákon Þór Svavarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×