Bjarki Sigurðsson fréttamaður ræddi við Karl Gauta í Herjólfshöllinni í Vestmannaeyjum þar sem margir dvelja sem hafa flúið hvassvirði og rigninu.
Karl Gauti segir helgina hafa gengið afskaplega vel frá sjónarhóli löggæslunnar.
„Það hefur ekkert stórkostlegt komið upp varðandi afbrot. Þá er ég að tala um líkamsárásir, fíkniefnabrot, kynferðisbrot, þetta hefur allt verið í lágmarki. Við erum til dæmis að finna mun minna af fíkniefnum en vanalega. Engin alvarleg líkamsárás og ekkert tilkynnt kynferðisbrot. Þegar þetta er raunin þá erum við sáttir.“

Veðrið hafi hins vegar sett strik í reikninginn.
„Það hefur rignt og verið hvasst. Við höfum þurft að bjóða sumum þjóðhátíðargestum hingað inn í þessa höll, sem er í sjálfu sér frábært. Að hafa aðstöðu til að bjóða fólki að vera inni fyrir veðrinu, þeim sem hafa lent í hrakningum,“ segir Karl Gauti. Hann bætir við að hann gruni að fólk skemmti sér jafn vel og vanalega þrátt fyrir veðrið.
Varðandi leitina sem fór fram að ungum manni í dag segir Karl Gauti að veðrið hafi ekki haft áhrif á leitina.
„Við vorum með dróna og þyrlan á leiðinni. En sem betur fer kom hann í leitirnar og er bara sprækur. Fyrir það þökkum við.“