Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar við Vísi. Fyrsta tilkynning barst Landsbjörgu upp úr klukkan hálf ellefu í kvöld og því nýtilkomið.
Jón Þór hafði ekki nákvæmar upplýsingar um staðsetningu hellisins, en segir að fyrstu vísbendingar bendi til þess að hann sé í nágrenni við Kerlingarfjöll.
„Það eru einstaklingar sem virðast hafa lokast inni í helli. Búið er að kalla út allar sveitir á Suðurlandi vestan Þjórsár og tvær sveitir á höfuðborgarsvæði sem eru með rústabjörgunarhópa,“ segir Jón Þór í samtali við Vísi.
Að sögn Jóns Þórs er líklegast að hrun hafi orðið í hellinum sem hafi leitt til þess að hann lokaðist. Það er hins vegar ekki staðfest.
Uppfært kl: 00:10:
Að sögn Jóns Þórs eru tveir ferðamenn fastir í helli, nokkra kílómetra suðaustur af hótelinu í Kerlingarfjöllum. Fyrstu björgunarsveitarhópar eru að nálgast Ásgarð.
„Útkallið er ansi stórt. Það er búið að kalla eftir margskonar tækjabúnaði; bæði beltabílum, buggy-bílum og hjólum. Það eru búið að kalla út bíl með rústabjörgunargám frá Reykjavík. Fimm undanfarar með þyrlu farnir af stað. Þannig að viðbragðið er stórt á meðan að við vitum ekki frekar hvernig í pottinn er búið.“
Uppfært kl. 00:55:
„Skyggni er ekki að hjálpa til þegar það kemur að því að nota þyrlu,“ segir Jón Þór. „Hóparnir í Kerlingarfjöllin þokast nær því sem neyðarboðin skráðu sem uppgefinn stað. Þetta gæti varað eitthvað eftir nóttu.“