„Það er enn verið að skoða hvort það sé eitthvað refsivert í gangi eða ekki,“ segir Jón Sigurgeirsson lögreglufulltrúi í samtali við fréttastofu.
Lögreglan á Suðurlandi sendi frá sér tilkynningu fyrir hádegi þar sem fram kom að við tollaeftirlit í gær hafi vaknað grunsemdir lögreglumanna um „refsiverða háttsemi, sem tengist fíkniefnum.“
Aðgerðir lögreglu beindust að bát sem kom til Hafnar síðdegis í gær, en Jón segir að verið sé að opna og skoða í hluti, og slíkar leitir taki tíma.
Tveir yfirheyrðir í gær
Enn sé alls óvíst hvort nokkuð saknæmt hafi átt sér stað.
„Við hefðum náttúrulega kosið að þetta færi ekkert í fjölmiðla,“ segir Jón og vísar til þess myndir af bátnum sem lögregla er með til rannsóknar hafi birst í fjölmiðlum. Mennirnir sem að málinu komi séu álitnir saklausir þar til annað komi í ljós.
„Ef þetta er ekki neitt mál þá kemur bara tilkynning frá okkur. Við viljum hafa fréttirnar sem réttastar.“
Tveir voru yfirheyrðir vegna málsins í gær að sögn Jóns, en lögregla hefur ekki gefið út hvort einhver sé enn í haldi vegna málsins.
„Við viljum bara gera okkur grein fyrir hvort þetta sé mál eða ekki, og höldum því þannig þar til annað kemur í ljós.“