Enska úrvalsdeildin fer af stað á föstudaginn kemur með leik Manchester United og Fulham. Mikil spenna er fyrir komandi leiktíð og líkt og alltaf má reikna með að eitthvað ungstirnið stígi fram á sjónvarsviðið og steli sviðsljósinu. Á síðustu leiktíð voru það miðjumennirnir Kobbie Mainoo og Adam Wharton.
Þó sá fyrrnefndi sé aðeins 19 ára gamall þá er hann ekki á lista BBC þar sem hann er nú þegar orðinn lykilmaður hjá Manchester United og enska landsliðinu. Sá síðarnefndi er það hins vegar en hann gekk í raðir Crystal Palace í janúar á þessu ári og stóð sig það vel á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni að hann var valinn í landsliðshóp Englands á EM.
Í umfjöllun BBC segir að forráðamenn Palace telji Wharton bestu kaup liðsins úr ensku B-deildinni en hann lék áður en Blackburn Rovers. Félagið hefur áður keypt upprennandi stjörnur úr deildinni fyrir neðan – til að mynda Michael Olise sem var seldur til Bayern München í sumar. Þar segir einnig að haldi hann áfram að spila eins og á síðustu leiktíð sé stutt í að eitt af bestu liðum deildarinnar kaupi hann á fúlgur fjár.
Hinn 16 ára gamli Chido Obi-Martin er genginn í raðir Man United frá Arsenal þar sem hann hefur spilað undanfarin tvö ár. Um er að ræða markamaskínu sem hefur raðið inn mörkum í öllum aldursflokkum til þessa.
Hann er uppalinn í Kaupmannahöfn og svo öflugur var hann þegar hann var barn að hann spilaði reglulega hálfleik í marki og hálfleik sem framherji til að leikir liðsins væru jafnari.
Ethan Nwaneri, yngsti leikmaður í sögu Arsenal, er einnig á listanum. Þessi 17 ára gamli miðjumaður kom við sögu á undirbúningstímabilinu og talið er að hann gæti fengið mínútur í liði Mikel Arteta í vetur.
Aðrir á listanum eru: Trey Nyoni (Liverpool), Josh Acheampong (Chelsea), Mikey Moore (Tottenham Hotspur), Jesurun Rak-Sakyi (Crystal Palace), Nico O‘Reilly (Manchester City), Michael Golding (Leicester City), Eric da Silva Moreira (Nottingham Forest), Pedro Lima (Wolves) og Harrison Armstrong (Everton).