Erfiðlega hefur reynst að ná niður verðbólgu frá því hún reis mest í 10,2 prósent í febrúar í fyrra. Mikil verðbólga hefur haldið megivöxtum Seðlabankans í hæstu hæðum í eitt ár og flestir telja litlar líkur á að hann lækki vextina á morgun. Meginástæða verðbólgunnar eru mikil umsvif í efnahagslífinu.

„Við erum með gríðarlega sterka efnahagsvél á Íslandi. Við höfum um margra ára skeið vaxið umfram nágrannalöndin. Við virðumst enn og aftur vera að fara fram úr spám um þann vöxt sem var hér í fyrra og jafnvel á fyrri hluta þessa árs. Eftir gríðarlega sterkan hagvöxt árið 2022, þar sem hagvöxtur var uppundir níu prósent. Sem er langt umfram önnur lönd í kringum okkur,“ segir forsætisráðherra.
Þannig hefur nýleg greining leitt í ljós að kortavelta Íslendinga og erlendra ferðamanna undanfarin nokkur ár hefur verið mun meiri en áður hafði verið talið. Skuldastaða heimilanna er góða og vanskil lítil. Enn er hins vegar gríðarleg umfram eftirspurn á húsnæðismarkaði sem leiðir til mikilla verðhækkana og þar með verðbólgu.
„Í fyrsta lagi hefur okkur fjölgað um 15 prósent síðan 2017. Það er töluvert mikil fólksfjölgun á Íslandi. Mikið af vinnuafli sem hefur flutt til landsins. Í öðru lagi, frá því í október í fyrra, er það bara þannig að heilt sveitarfélag þurfti að flytja. Þetta eru fjögur þúsund manns sem koma þá inn á húsnæðismarkaðinn. Það er ekki að hjálpa okkur,“ segir Bjarni.
Eftirspurn eftir húsnæði væri því enn til staðar þótt þrótturinn í íbúðauppbyggingu hefði aldrei verið meiri en núna. Það væru ytri mörk á því hversu mikið væri hægt að framkvæma því hvergi væri meiri eftirspurn eftir vinnuafli en í byggingageiranum.

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir erfitt að búa við hátt vaxtastig í langan tíma en það tæki sinn tíma fyrir vaxtahækkanir að virka. Enn væri neysla Íslendinga og ferðamanna mikil. Þá flytti almenningur húsnæðislán sín í vaxandi mæli frá óverðtryggðum lánum í verðtryggð.
„Þótt það sé alveg eðlilegt að fólk sé að minnka greiðslubyrði sína. En það þýðir auðvitað að stýrivextirnir bíta síður sem stýritæki. Þetta er eitthvað sem Seðlabankinn hlýtur að íhuga,“ segir fjármálaráðherra.
Þótt efnahagslífið byggði á styrkari og fjölbreyttari stoðum en áður stæði enn yfir glíma við verðbólguskotið eftir covid faraldurinn og innrásina Rússa í Úkraínu, sem hækkuðu verð á öllum aðföngum og flutningskostnað.
„Og margt bendir til að DNA-ið í okkur Íslendingum sé svolítið það, að við sættum okkur við að verð hækki látlaust. Við höldum samt áfram að kaupa,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.