Skoðun

Mikil­vægi þess að taka hús­næðis­liðinn úr neyslu­vísi­tölunni

Anton Guðmundsson skrifar

Vísitala neysluverðs (VNV) er ein af mikilvægustu mælieiningum sem notuð er til að meta verðlagsbreytingar á Íslandi. Vísitalan hefur bein áhrif á fjármál heimilanna, til dæmis með því að hafa áhrif á verðtryggðar skuldir og húsnæðislán. VNV inniheldur ýmsa þætti, þar á meðal verðlag á hrávöru og húsnæði. Húsnæðisverð hefur undanfarið haft mikið vægi í vísitölunni vegna verulegra verðhækkana á fasteignamarkaði, sem stafar að miklu leyti af mikilli umframeftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Þessar hækkanir hafa kynt undir verðbólgu, sem stendur nú í 6,3%.

Verðbólguhvetjandi þáttur

Þar sem húsnæðisverð hefur svo mikil áhrif á VNV, verður það sjálfkrafa verðbólgu hvetjandi þáttur. Þegar húsnæðisliðurinn hækkar, hækkar vísitalan í heild sinni, sem aftur hækkar verðtryggðar skuldir heimila. Þetta býr til vítahring þar sem verðbólga kallar á hærri afborganir, sem gerir fjárhag heimila enn erfiðari.

Það er því mikilvægt að Alþingi taki málið til skoðunar og setji á dagskrá að fjarlægja húsnæðisliðinn úr VNV. Með því að gera það væri unnt að ná fram skýrari mynd af raunverulegum verðlagsbreytingum sem hafa ekki tengsl við fasteignamarkaðinn. Þetta gæti dregið úr áhrifum húsnæðisverðs á verðbólgu og létt á fjárhag heimila með verðtryggð lán.

Húsnæðisverð á ekki að vera drifkraftur verðbólgu

Húsnæðisverð á ekki að vera drifkraftur verðbólgu, og því er nauðsynlegt að endurskoða samsetningu neysluvísitölunnar til að tryggja að hún endurspegli betur raunverulegt verðlag í landinu. Með því að taka húsnæðisliðinn úr VNV gæti verið mögulegt að ná fram stöðugra efnahagsumhverfi, sem er hagstætt fyrir bæði heimili og fyrirtæki. Alþingi ber ábyrgð á því að taka skref í þessa átt og tryggja sanngjarnt og stöðugt efnahagskerfi.

Höfundur er oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.




Skoðun

Sjá meira


×