Konan var ásamt bandarískum manni sínum í íshellaskoðunarferð með fyrirtækinu Ice Pic Journeys sem gerir út sumarferðir á svæðinu ásamt fleiri fyrirtækjum. Hann lést í slysinu. Alls voru 23 ferðamenn í hópnum sem skipt var í tvo hluta. Einn leiðsögumaður var með hvorn hóp en samkvæmt heimildum fréttastofu voru báðir óreyndir.
Leitað var að tveimur ferðamönnum til viðbótar undir ís fram á miðjan dag á mánudag þar til að í ljós kom að fyrirtækið hefði veitt lögreglu rangar upplýsingar um hversu margir hefðu verið í ferðinni. Þá var ljóst að enginn hefði verið ófundinn undir ísnum.
Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir að rannsókn á slysinu miði ágætlega en taki sinn tíma. Rætt hafi verið við alla ferðamennina sem voru í hópunum tveimur og leiðsögumennina.
Aðspurður um reynsluleysi leiðsögumannanna segir hann ekki tímabært að gefa neitt uppi um slíkt. Það sé hluti af rannsókninni. Lögregla haldi áfram að viða að sér gögnum og upplýsingum.
Vegurinn að Breiðamerkurjökli þar sem slysið varð er enn opinn. Sveinn Kristján segir lögreglu ekki hafa til skoðunar að loka honum.
„Þá værum við að fara að loka öllum jöklum landsins,“ segir Sveinn Kristján. Þónokkur fyrirtæki selja íshellaferðir í Kötlujökul á Suðurlandi sem dæmi. Aðspurður segir Sveinn Kristján lögreglu ekki hafa sérstaka skoðun á því nema að öryggis sé gætt, reynslumikið fólk meti svæðið og allir séu skráðir í ferðina.