The Sun greinir frá því að Chelsea hafi reynt að lagfæra bókhaldið með því að selja ýmsar eignir til systurfélaga Clearlake Capital, eiganda félagsins. UEFA mun hins vegar ekki taka það í mál að slíkar sölur geti haft áhrif á bókhald félagsins.
Clearlake, undir stjórn Todd Boehly, hafði selt tvö hótel í eigu félagsins til systurfélaga Clearlake, fyrir um 76 og hálfa milljón Sterlingspunda eða nærri 14 milljarða íslenskra króna. Þá var kvennaliðið selt til Blueco, sem einnig er í eigu Todd Boehly, aðeins tveimur dögum fyrir lok „fjárhagsárs“ Chelsea í júní síðastliðnum.
Enska úrvalsdeildin á enn eftir að loka smugum sem þessum svo Chelsea getur skráð slíkar sölur í sama bókhald og það sem er í gríðarlegum mínus eftir hin og þessi kaup á leikmönnum fyrir karlalið félagsins.
UEFA mun hins vegar ekki taka í mál að sölur sem þessar séu í sama flokki og sölur leikmanna. Það er tekið fram í frétt The Sun að ástandið muni ekki hafa áhrif á þátttöku liðsins í Sambandsdeild Evrópu á núverandi leiktíð en mun gera það á næstu leiktíð.
Takist félaginu því ekki að selja eitthvað af þeim 40 leikmönnum sem nú eru í aðalliði félagsins gæti farið svo að það fái ekki að taka þátt í keppnum á vegum UEFA leiktíðina 2025-26 þó svo það vinni sér inn sæti í Meistara-, Evrópu- eða Sambandsdeildinni.