Í könnun Maskínu í vikunni mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 13,9 prósenta fylgi, sem er lægsta fylgi sem flokkurinn hefur nokkurn tímann mælst með. Í þjóðarpúlsi Gallúp sem birtist í gær mælist flokkurinn með 17,1 prósent.
Fyrrverandi forsætisráðherra og formaður flokksins segir flokkinn í gríðarlega erfiðri stöðu, eins og samstarfsflokkurinn Vinstri græn, sem mælist með 4,6 prósent og 3,4 prósent í sömu könnunum.
„VG er líka að hrapa. Þau hafa misst 80 prósent af sínu fylgi til Samfylkingar og Sósíalistaflokksins,“ segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.
Skjóti hvor annan niður
Hann segir ljóst að eðli stjórnarsamstarfsins hafi byggst í of ríkum mæli á að flokkarnir skjóti niður mál hins, frekar en á hefðbundnum málamiðlunum.
„Ég held að það væri skynsamlegast fyrir báða þessa flokka að gera það sem ekki er nú alltaf gert í pólitík, að segja bara satt. Að menn nái ekki lengra með þetta stjórnarsamstarf og það sé nauðsynlegt að stokka upp spilin og kjósa upp á nýtt.“
Það verði ekki gert með því að finna ágreining milli flokkanna, og sprengja stjórnina á grundvelli hans.
„Það er of seint. Þeir eru búnir að missa þann möguleika,“ segir Þorsteinn.
Ný forysta ekki endilega nóg
Flokksráðsfundur Sjálfstæðismanna fer fram í dag. Prófessor emeritus í stjórnmálafræði segir ljóst að staða flokksins og forystu hans verði rædd á fundinum, en Sigríður Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra sagði til að mynda í tilefni af nýjustu fylgismælingum að fylgið kallaði á breytingar á forystu flokksins.
„Ég sé nú ekki í fljótu bragði að það sé líklegt að ný forysta myndi snúa þessu við. Annað í stöðunni væri óbreytt, þeir væru ennþá í þessari ríkisstjórn,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus.

Ný forysta geti hins vegar hresst upp á ásýnd flokka.
„Það er alveg opin spurning hvort nýr formaður myndi ná eitthvað meiri árangur heldur en Bjarni. Og það er líka spurning hvaða nýti formaður væri lílkegur til að hífa upp fylgi flokksins.“
Sjálfstæðismenn ganga til landsfundar í febrúar næstkomandi. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra og varaformaður flokksins hefur sagt að hún muni gefa kost á sér til áframhaldandi starfa í forystunni, en Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður sagði í gær að hann myndi taka afstöðu til mögulegs formannsframboðs þegar nær drægi landsfundinum.