Árásarmaðurinn réðst á karlmann á þrítugsaldri úti á götu og veitti honum lífshættuleg stungusár í síðu og öxl við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu aðfararnótt 20. janúar. Saksóknari segir rannsóknargögn bera með sér að árásin hafi verið algjörlega að ástæðulausu og tilviljun ein hafi ráðið því á hvern maðurinn réðst.
Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi allt frá því hann var handtekinn í ljósi alvarleika brotsins sem hann er ákærður fyrir en við því getur legið allt að lífstíðarfangelsi.
Landsréttur staðfesti'á föstudag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um framlengingu gæsluvarðhaldsins til 23. september. Í honum var það talið geta valdið almennum samfélagslegum óróa yrði maðurinn látinn laus á þessu stigi.
Aðalmeðferð í málinu á að hefjast mánudaginn 9. september. Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kemur fram að matsmenn telji manninn sakhæfan.
Lagði til manns sem reyndi að hjálpa
Fórnarlamb árásarinnar hefur lýst atvikum þannig að hann og vinkona hans hafi verið á gangi úr miðborginni þegar þau veittu manninum athygli þar sem hann hafi gengið úti á miðri götu. Þeim hafi fundist maðurinn stefna sjálfum sér í hættu.
Þegar brotaþoli reyndi að ná sambandi við manninn hafi hann slegið til hans, fyrst í öxl og svo í síðuna. Þá hafi brotaþoli og vinkonan hlaupið burt. Það hafi ekki verið fyrr en þau stoppuðu að þau tóku eftir því að brotaþoli væri með stunguáverka bæði á öxlinni og síðunni.
Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á bráðamóttöku. Samkvæmt vottorði læknis voru áverkar hans lífshættulegir. Hann hefði jafnvel getað látist hefði hann ekki notið læknisaðstoðar beint í kjölfarið.
Árásarmaðurinn kannaðist óljóst við að hafa hitt einhvern og hafa lent í útistöðum við hann. Hann sagði lögreglu aftur á móti að hann teldi að ráðist hefði verið á hann og honum veitt stungusár á hendi. Hann kannaðist við að hafa hitt parið en sagði það hafa „atast“ í sér. Hann myndi ekki eftir að hafa verið þar sem árásin átti sér stað.
Á heimili mannsins fannst engu að síður blóðugur hnífur sem hann kannaðist við að hafa haft á sér um nóttuna. Þá fannst blóð úr árásarmanninum, skófar sem passaði við skóna sem hann var handtekinn í og sími hans á staðnum þar sem vitni lýstu því að árásin hefði farið fram. Á fatnaði brotaþola fannst jafnframt blóð úr árásarmanninum auk hans eigins.