Innlent

661 barn á bið­lista eftir plássi í leik­skólum Reykja­víkur­borgar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Marta segir ekkert hafa breyst á kjörtímabilinu.
Marta segir ekkert hafa breyst á kjörtímabilinu. Vísir/Vilhelm

Alls bíður 661 barn nú eftir því að fá pláss í leikskóla á vegum Reykjavíkurborgar, samkvæmt svörum skóla- og frístundaráðs við fyrirspurn Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Frá þessu greinir Morgunblaðið en í umfjöllun blaðsins segir að þar af séu 172 börn 18 mánaða eða eldri.

Um er að ræða svipaðan fjölda og var á biðlista síðasta haust en þá biðu 658 börn eftir plássi.

Samkvæmt svörum ráðsins hafa 58 börn á biðlistanum fengið boð um vistun en boðinu verið hafnað, í flestum tilvikum til að halda börnunum áfram á biðlista eftir plássi á þeim leikskóla þar sem foreldrar vilja helst hafa barnið sitt.

Þá er bent á að börn sem fara á sjálfstætt starfandi leikskóla detti ekki út af biðlistum fyrr en þau hefja vistun.

„Það lítur út fyrir að meirihlutinn sé búinn að gefast upp á að leysa leikskólavandann vegna þess að þau hafa ekki komið með eina einustu tillögu í þá átt sem miðar að því að við komumst fyrir vind í þessu og leysum þennan vanda,“ segir Marta í samtali við Morgunblaðið.

„Það er búið að ríkja neyðarástand í leikskólamálum frá upphafi kjörtímabilsins og staðan breytist ekki á milli ára og meðalaldur barna hækkar stöðugt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×