Talsverða athygli vakti þegar bílastæðaþjónustan Base parking á Keflavíkurflugvelli var úrskurðuð gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness í maí síðastliðnum. Nafni félagsins hafði þá verið breytt í Siglt í strand ehf.
Þjónusta Base Parking fólst í að starfsmenn sáu um að leggja bílum flugfarþega og færa þeim þá aftur við heimkomu. Viðskiptavinir fyrirtækisins kvörtuðu ítrekað undan því lyklar og jafnvel bílar þeirra fyndust ekki þegar þeir ætluðu að fá þá til baka. Í sumum tilfellum lögðu starfsmenn Base Parking bílum í gjaldskyld stæði þannig að viðskiptavinir voru tvírukkaðir fyrir að leggja bílum sínum.
Einn viðskiptavinur sá á upptöku úr framrúðumyndavél bíls síns að starfsmaður fyrirtækisins hefði ekið bílnum á 170 kílómetra hraða á klukkustund.
Eftir orrahríð ásakana um misjafna viðskiptahætti lagði fyrirtækið upp laupana og félaginu var siglt í strand.
Í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu segir að skiptum búsins hafi verið lokið þann 12. ágúst án þess að nokkuð fengist upp í lýstar kröfur upp á 58.869.155 krónur.