Innlent

Byssan reyndist leik­fang

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Kolbeinn Tumi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með talsverðan viðbúnað eftir að tilkynning barst um mann sem ók um með það sem tilkynnandi kallaði loftbyssu. Umfangsmikil leit hófst þó að bílnum sem fannst skömmu síðar.

Þá kom í ljós að maðurinn var með leikfangabyssu. Ekki fylgir sögunni í dagbók lögreglunnar hvort einhverjir eftirmálar verði þar á.

Lögregluþjónar á höfuðborgarsvæðinu höfðu í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Alls voru 84 mál bókuð í kerfi lögreglu frá fimm í gær til klukkan fimm í morgun og gistu sex í fangaklefa í morgun. Töluverður fjöldi ökumanna voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.

Í einu tilfelli voru lögregluþjónar kallaðir til vegna manns sem réðist að starfsfólki hótels í miðbænum.

Lögregluþjónar frá lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti handtók mann í heimahúsi, sem grunaður er um líkamsárás og var sá vistaður í fangaklefa. Þá voru tveir aðrir handteknir vegna húsbrots. Þeir voru mjög ölvaðir og voru komnir inn á heimili annarra.

Þá barst lögreglunni í nótt tilkynning um mann sem hafði verið mjög æstur á bensínstöð. Hann var þar til að kaupa veitingar en kýldi í gler og fór svo af vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×