Innlent

Skráir sig í Sam­fylkinguna eftir tölu­verða yfir­legu og sam­töl

Atli Ísleifsson skrifar
Þórður Snær Júlíusson lét nýverið af störfum sem annar ritstjóri Heimildarinnar.
Þórður Snær Júlíusson lét nýverið af störfum sem annar ritstjóri Heimildarinnar. Vísir/Vilhelm

Þórður Snær Júlíusson, blaðamaður og fyrrverandi ritstjóri Kjarnans og síðar Heimildarinnar, hefur skráð sig í Samfylkinguna. Hann segir pólitík flokksins vera þá sem honum hugnast best. 

Þórður Snær greinir frá þessu í Kjarnyrt, fréttabréfi sínu, í morgun. Þar segir hann að hann hafi þar með ákveðið að taka þátt í skipulögðu stjórnmálastarfi í fyrsta sinn á ævi sinni.

„Ég tel, eftir töluverða yfirlegu og fjölmörg samtöl, að þar sé að finna þá pólitík sem mér hugnast best og fer saman við þær áherslur sem ég vil sjá að séu ráðandi í samfélaginu. Nú er tíminn til að knýja fram réttlátar breytingar á Íslandi og Samfylkingin, sem hefur opnast og breikkað með innkomu og undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, er að mínu mati aflið til að leiða þá vegferð. Ég vil taka þátt í því stóra verkefni af fullum krafti og leggja mitt lóð á vogaskálarnar fyrir betra samfélagi.

Mér finnst réttast að greina strax frá þessu hér þannig að ekkert sé óljóst varðandi mína stöðu þegar greiningar og pistlar eru lesnir, sérstaklega þar sem kosningar virðast ætla að verða næsta vor,“ segir Þórður Snær.

Tekið af sér verkefni fyrir flokkinn og hættir á Rás 1

Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Þórður Snær að hann hafi þegar tekið að sér ákveðin verkefni tengd stefnumótun fyrir flokkinn frá og með komandi mánaðamótum.

„Samhliða hef ég tilkynnt stjórnendum Morgunvaktarinnar á Rás 1 að ég sé hættur að greina efnahagsmál og samfélag á þeim vettvangi, en það hef ég gert óslitið síðan í byrjun árs 2019. Greiningin á þriðjudag var því sú síðasta. Það passar ekki saman, að mínu viti, að taka þátt í skipulögðu flokksstarfi og sinna því hlutverki. Frábærum stjórnendum og öllum sem hafa hlustað þakka ég samfylgdina í næstum sex ár,“ segir Þórður Snær. 

Þórður Snær ritstýrði Kjarnanum frá stofnun miðilsins árið 2013 þar til hann sameinaðist Stundinni og úr varð Heimildin í lok árs 2022. Þórður var annar ritstjóra Heimildarinnar þangað til í sumar.

Þórður Snær greinir frá ákvörðun sinni daginn eftir að lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra tilkynnti að ákvörðun hafði verið tekin um að hætta rannsókn í máli sem varðaði meinta byrlun Páls Steingrímssonar, skipstjóra Samherja, afritun á upplýsingum af síma einstaklings og dreifingu á kynferðislegu myndefni. 

Sex blaðamenn, þar á meðal Þórður Snær, höfðu þar réttarstöðu sakbornings í málinu í á fjórða ár, ásamt fyrrverandi eiginkonu Páls.


Tengdar fréttir

Þórður Snær segir skilið við Heimildina

Þórður Snær Júlíusson hefur látið af störfum sem annar tveggja ritstjóra Heimildarinnar. Fjölmiðilinn Kjarnann, sem sameinaðist Stundinni árið 2023, stofnaði hann fyrir tæpum ellefu árum síðan. 

„Þetta má aldrei gerast aftur“

Fyrrverandi ritstjóri Kjarnans og sakborningur í byrlunar- og símastuldsmáli Páls Steingrímssonar skipstjóra hjá Samherja segir einstökum aðförum í sögu Íslands loks lokið eftir 961 dags rannsókn. Hann er hugsi yfir réttlætingu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra á rannsókninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×