Fish house er veitingastaður sem var starfræktur í Grindavík frá árinu 2016 þangað til hann færði sig um set vegna jarðhræringa í fyrra, en í dag er hann í miðbæ Reykjavíkur. Atvikið sem málið varðar átti sér því stað í Grindavík.
Líkamsárásinni er lýst þannig að maðurinn hafi verið við barborð veitingastaðarins þegar starfsmaðurinn hafi kýlt hann með krepptum hnefa. Við það hafi maðurinn fallið aftur fyrir sig og skollið með höfuðið í gólfið.
Hann hafi rotast í tvær til þrjár mínútur og fengið stóra kúlu á hnakka. Í dómi Héraðsdóms er tíðum heimsóknum mannsins á sjúkrahús vegna áverkanna sem hann hlaut lýst. Fram kemur að hann hafi fengið viðvarandi svima sem hafi háð honum frá vinnu.

Þess má geta að fyrir dómi sagði starfmaðurinn að maðurinn sem varð fyrir árásinni hefði í raun átt fyrsta höggið. Maðurinn hefði sakað veitingastaðinn um að reyna að féflétta sig þegar hann hafi verið að reyna að greiða fyrir samloku á 400 krónur, en honum hafi gengið illa að nota snertilausa greiðslu.
Þeir hafi verið að ræða þetta þegar maðurinn hafi kýlt starfsmanninn, sem sagðist algjörlega ósjálfrátt hafa kýlt manninn til baka. Starfsmaðurinn hlaut þrjátíu daga skilorðsbundinn fangelsisdóm vegna málsins og var gert að greiða 350 þúsund krónur í bætur.
Fellur ábyrgð á vinnuveitandann?
Maðurinn sem varð fyrir árásinni krafðist þess að starfsmaðurinn, veitingastaðurinn og tryggingafélagið myndu greiða honum skaðabótaskyldu.
Héraðsdómur féllst á það og sagði að þó framferði starfsmannsins geti ekki talist eðlileg háttsemi við afgreiðslu á veitingastað þá hafi framferði hans verið í tengslum við starfið og því félli ábyrgð á vinnuveitandann.
Þáttur veitingastaðarins og tryggingafélagsins fór fyrir Landsrétt sem var ósamála héraðsdómi. Landsréttur sagði árásina ekki í slíkum tengslum við starfið að veitingastaðurinn bæri ábyrgð. Því voru Fish house og Sjóvá sýknuð í málinu.