Þetta sagði Magnús í pallborði á Menntaþingi um stöðu menntakerfisins. Þingið fer fram á Hilton í dag. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra opnaði þingið.
Magnús og Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, tókust nokkuð á um matsferilinn í pallborðinu. Magnús sagði sambandið og Viðskiptaráð að miklu leyti sammála. Það sé skýrt að það sé þörf á gæðastöðlum en það þurfi að horfa til námskrár þegar það er ákveðið hvað sé gert. Ytra mat hafi legið niðri og það sé að miklu leyti pólitíkinni að kenna. Kennarar vilji að starf þeirra sé metið.
Hann segir alveg skýrt að Kennarasambandið hafi ekki talað gegn samræmdum prófum. Prófin hafi verið lögð niður af tæknilegum ástæðum en niðurstöðurnar hafi verið vel nýttar innan skólanna. Spurningin um prófin sé hvort niðurstaða úr samræmdu prófi sé sanngjörn aðferð til að meta skólastarfið. Því skólarnir séu fyrir alla og geri meira en sé verið að prófa þar.
Neyðarástand í menntakerfi
Viðskiptaráð hefur gagnrýnt það nokkuð undanfarið að ekkert samræmt námsmat sé lengur við lok grunnskólans. Hann segir marga hafa furðað sig á því að ráðið væri að tjá sig um matsferilinn en benti á að Viðskiptaráð væru 100 ára gömul samtök sem kæmu að rekstri Verzlunarskólans og Háskólans í Reykjavík. Hann segir neyðarástand í menntakerfinu á Íslandi og staðan sé miklu verri hér en, til dæmis, á öðrum Norðurlöndum.
Sjá einnig: Viðskiptaráð biður ráðuneytið um niðurstöður námsmats
„Námsmatið er einn mikilvægasti þátturinn,“ sagði Björn. Samræmdu prófin hefðu verið lögð niður og svo kynnt nýr matsferill. Samtökin hafi gert miklar athugasemdir við hann en sérstaklega við gagnsæi. Það sé mat samtakanna að það sé afar mikilvægt að allir viti niðurstöðuna úr matinu á skólakerfið. Þetta hafi að einhverju leyti verið lagað í nýju frumvarpi ráðherra sem nú liggi fyrir á þingi.
Björn benti á að í nýja matsferlinum sé gert ráð fyrir að hluti hans sé valkvæður og hluti hans skyldaður. Það sé samræmt mat í 4., 7. og 9. bekk en ekkert samræmt mat við lok skólagöngunnar. Nemendur njóti því ekki jafnræðis þegar þeir sæki um í framhaldsskóla. Skólaeinkunnir séu ekki sambærilegar og hann skilji ekki hvers vegna framhaldsskólarnir eigi að miða við það.
Námsmat verði að miða við námsskrá
Magnús segir áríðandi námsmatið sem sé miðað við sé miðað við námsskrá. Samræmt próf sem prófi aðeins ákveðna þætti segi ekkert um skólakerfið í heild sinni.
Elsa Eiríksdóttir, prófessor og deildarforseti Deildar faggreinakennslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands tók undir þetta.
„Það er mikilvægt að vera með samræmt námsmat því við verðum að vita eitthvað um skólakerfið,“ segir Elsa og að hún sé ekki sammála því að námsmatið eigi að vera við lok skólagöngu nemenda. Kennarar þurfi að geta brugðist við og fundið út hvaða stuðning skólar og nemendur þurfa.
„Þetta á ekki að vera aðstoð fyrir framhaldsskóla til að velja sér nemendur. Við eigum að nota þessar upplýsingar til að þjóna nemendum,“ segir Elsa.
Björn brást við þessu og sagði námsmatið ekki eiga að vera „alpha og ómega“. Það sé margt flott í nýjum matsferli en það sé svo margt sem sé valkvætt.
„Það verður að vera samræmd mæling á grunnfærni.“