Oliver var markahæsti leikmaður deildarinnar með 14 mörk og átti stóran þátt í því að ÍBV fór beint aftur upp í Bestu deild karla. Jafnframt valdi Fótbolti.net hann besta leikmann tímabilsins.

Heiðar Helguson, faðir Olivers, lék lengi vel á Englandi og fær sonur hans því að æfa með U-21 árs liði Watford þar sem Heiðar spilaði frá 1999 til 2005 og svo aftur frá 2009-2010.
„Er búinn að æfa með U-21 árs liði Watford síðan á miðvikudaginn. Fer síðan til Liverpool um helgina og geri eins hjá Everton,“ sagði Oliver í viðtali við Fótbolti.net.
Heiðar spilaði með Sean Dyche, núverandi þjálfara Everton, hjá Watford og náði að toga í nokkra spotta. Gerði hann slíkt hið sama þegar hann var aðstoðarþjálfari Kórdrengja sem léku í Lengjudeildinni en liðið fékk þá markvörðurinn Lukas Jensen á láni frá Burnley sem Dyche þjálfaði. Markvörðurinn er í dag aðalmarkvörður Millwall í ensku B-deildinni.
Í viðtali sínu við Fótbolti.net segir Oliver að getustigið sér örlítið hærra en hann eigi að venjast hér á landi. Hann gerir sér ekki vonir um að fá kall inn á aðalliðsæfingu hjá Watford eða Everton „en það væri gaman.“
ÍBV fer upp í Bestu deildina ásamt Aftureldingu sem hafði betur í úrslitaleik umspilsins gegn Keflavík. Það er þó óvíst hver þjálfar ÍBV á næstu leiktíð þar sem Hermann Hreiðarsson sagði starfi sínu lausu eftir að tímabilinu lauk.