Þetta er meðal þess sem fram kemur í aðsendri grein á Vísi sem undirrituð er af Arnari Þóri og Sveini Hirti Guðfinnssyni og Kára Allanssyni. Sveinn Hjörtur var varaborgarfulltrúi Miðflokksins þar til árið 2021 þegar hann sagði sig úr flokknum. Ástæðurnar sagði hann margar án þess að nefna þær. Kári Allansson er organisti og hefur meðal annars starfað í Háteigskirkju og í Grindavíkurkirkju.
Í samtali við Vísi segir Arnar Þór að undirbúningur gangi vel. Stofnendum sé fúlasta alvara. Flokkurinn muni bjóða sig fram í öllum kjördæmum í næstu alþingiskosningum.
Tólf loforð til kjósenda
Þremenningarnir segja meðal annars í grein sinni að stór hluti almennings þori ekki að tjá skoðanir sínar og að margir haldi að framtíðin verði best tryggð með því að þegja, brosa og hlýða yfirvaldinu. Þeir segja að flokkurinn muni standa fyrir tólf loforðum til kjósenda sem kynnt verði á næstu dögum og vikum.
„Gömlu stjórnmálaflokkarnir eru myndbirting þessa vandamáls og þjóna hagsmunum flokkseigenda fremur en kjósenda. Ríkisreknir fjölmiðlar og ríkisreknir stjórnmálaflokkar sameinast um að þjóna kerfinu sem til er orðið. Það útskýrir sterk viðbrögð við Lýðræðisflokknum sem lofar að þjóna almenningi og efla beint lýðræði.“
Þeir segja að í umhverfi þar sem stefnumál flokka sjáist ekki í framkvæmd bregðist flokkarnir hagsmunum kjósenda sinna daglega. Við slíkar aðstæður sé brýn nauðsyn á pólitískri endurnýjun.
Þá birta þeir félagar nokkur áherslumál flokksins. Nefna þeir áherslur líkt og að á Íslandi búi frjáls þjóð í frjálsu landi, að innviðir verði treystir að nýju, nefna miklu lægri skatta, breytingar á útvarpsgjaldi og húsnæðismál.
