Liam Delap er 21 árs gamall Englendingur og hefur leikið fjölda leikja með yngri landsliðum Englands, nú síðast U21-landsliðinu í september.
Hann er sonur innkastasérfræðingsins Rory Delap sem á sínum tíma lék ellefu leiki fyrir A-landslið Írlands, og hefði því getað valið að spila fyrir Írland í stað Englands. Írar hafa verið í sambandi við kappann.
Með því að spila fyrir U21-landslið Englands í síðasta mánuði, orðinn 21 árs, lokaði Delap hins vegar á að spila fyrir annað landslið, samkvæmt reglum FIFA, en allt útlit er fyrir að reglunum verði breytt á næstunni þannig að Delap verði kleift að spila fyrir Írland. Það á nefnilega að hækka lágmarksaldur þannig að menn megi að hámarki hafa spilað þrjá landsleiki, þar af einn mótsleik, eftir 22 ára aldur (í stað 21), og samkvæmt nýju reglunum munu U-landsleikir ekki teljast með.
„Hann veit að við höfum áhuga“
Heimir var spurður út í Delap og segir að dyrnar standi opnar fyrir hann. Best sé að O‘Shea sé í sambandi við hann en aðstoðarlandsliðsþjálfarinn spilaði á sínum tíma með Rory Delap í landsliðinu.
„Ég veit bara hvaða hæfileika hann [Liam Delap] hefur. Á endanum er þetta alltaf ákvörðun hvers leikmanns. Hann veit að við höfum áhuga. Við töluðum um það fyrir síðasta landsliðsverkefni,“ sagði Heimir.
„John [O‘Shea] er búinn að vera í sambandi við hann áður. Hann er betur tengdur leikmanninum en ég og það er engin ástæða til þess að það séu 3-4 menn í sama verkefninu,“ sagði Heimir.