Leikurinn byrjaði vel fyrir Inter en Guillermo Maripan fékk beint rautt spjald í liði Torino þegar 20 mínútur voru liðnar. Fimm mínútum síðar kom Marcus Thuram heimamönnum yfir og tíu mínútum síðar tvöfaldaði Thuram forystu Inter.
Duvan Zapata minnkaði muninn fyrir Torino aðeins mínútu eftir að Thuram kom Inter 2-0 yfir og staðan 2-1 í hálfleik. Þegar slétt klukkustund var liðin fullkomnaði Thuram þrennu sína og í raun sigurinn. Manni færri tókst gestunum þó að minnka muninn í 3-2, Nikola Vlašić með markið úr vítaspyrnu.
Nær komust gestirnir þó ekki og lokatölur á San Siro í Mílanó 3-2. Inter er því komið með 14 stig og situr í 2. sæti Serie A en Napoli er á toppnum með 16 stig.
Önnur úrslit Serie A í dag voru þau að Udinese lagði Lecce 1-0 og Atalanta vann Genoa 5-1.