Í síðustu viku birti dómsmálaráðherra drög að frumvarpi um breytingu á áfengislögum, sem heimila innlenda netverslun með áfengi. Lagt er til í drögunum að netsalan verði leyfisskyld og hinum ýmsu skilyrðum háð. Til að mynda verði hvorki heimilt að afhenda áfengi á sunnudögum né seint á kvöldin. Þessar hömlur hafa mætt gagnrýni, meðal annars frá rekstraraðila slíkrar netverslunar.
Ráðherra leggur áherslu á að um sé að ræða drög sem liggi nú í samráðsgátt.
„Þetta er það ferli sem við vinnum eftir. Ég legg þau til samráðs og það getur hver sem er sent inn umsögn eða gert athugasemdir við frumvarpið. Þannig að þetta er ekki endanlegt frumvarp,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Sambærilegt áfengislögum
Drögin séu í samræmi við önnur frumvörp sem fyrirennarar hennar í embætti hafi lagt fram.
„Það má segja að þau skilyrði sem þarna koma fram í drögunum eru sambærileg skilyrðum sem finna má í núgildandi áfengislögum og gilda um áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.“
Guðrún fagnar því að gagnrýni á frumvarpið sé á þann veg að færa þurfi frumvarpið í meiri frelsisátt.
„Það er bara góð og réttmæt gagnrýni sem ég get að einhverju leyti tekið undir.“
Kemur ekki á óvart
Guðrún segir að hún muni taka tillit til athugasemda og umsagna áður en málið verði lagt fyrir ríkisstjórn og síðan þingið, sem eigi lokaorðið.
Kemur þessi gagnrýni þér á óvart, sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem talað hefur fyrir auknu frelsi í þessum málum?
„Nei það kemur mér ekkert á óvart, og ég fagna því að umræðan í kringum þessi frumvarpsdrög hefur öll verið á þann veg að létta þurfi á skilyrðum og færa frumvarpið í frekari frelsisátt,“ segir Guðrún.