Neeskens var miðjumaður og mikilvægur hluti af Ajax og hollenska landsliðinu sem vakti aðdáun um allan heim með „total football“-leikstíl sínum á áttunda áratugnum.
Hann lék alls 49 landsleiki fyrir Holland og var í liðunum sem unnu til silfurverðlauna á HM 1974 og 1978.
Með Ajax vann Neeskens Evrópubikarinn þrívegis og tvo Hollandsmeistaratitla. Hann lék einnig með Barcelona í fimm ár og vann spænska bikarinn og Evrópukeppni bikarhafa.
„Hollenski og alþjóðlegi fótboltaheimurinn hefur misst goðsögn, með fráfalli Johan Neeskens. Nafn hans verður ætíð tengt Evrópuárangri félaga á borð við Ajax og Barcelona, og tveimur HM-úrslitaleikjum hollenska landsliðsins,“ sagði í tilkynningu frá hollenska knattspyrnusambandin.
„Með sínum einkennandi tæklingum, einstöku innsæi og goðsagnakenndu vítaspyrnum verður hans ætíð minnst sem eins þekktasta og dáðasta leikmanns sem spilað hefur fyrir okkar þjóð,“ sagði í tilkynningunni.
Neeskens reyndi fyrir sér sem þjálfari eftir að leikmannaferlinum lauk árið 1991. Hann þjálfaði nokkur lið og var einnig aðstoðarþjálfari hollenska landsliðsins á árunum 1995 til 2000.