Innlent

Skrif­stofu­stjóri með tuttugu ára reynslu nýr ráðu­neytis­stjóri

Kjartan Kjartansson skrifar
Ingilín Kristmannsdóttir, nýr ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins.
Ingilín Kristmannsdóttir, nýr ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins. Stjórnarráðið

Innviðaráðherra skipaði Ingilín Kristmannsdóttur í embætti ráðuneytisstjóra innviðaráðuneytisins. Ingilín hefur starfað í tuttugu ár fyrir ráðuneytið og forvera þess, síðustu tvö árin sem skrifstofustjóri stefnumótunar og fjárlaga.

Þrettán sóttu um embættið sem var auglýst um miðjan júní. Rágefandi hæfnisnefnd mat hæfni umsækjenda en Ingilín varð fyrir valinu eftir viðtöl ráðherra við umsækjendur og að teknu tilliti til álits nefndarinnar, að því er segir í tilkynniningu frá stjórnarráðinu.

Ingilín er þar sögð hafa víðtæka reynslu hjá Stjórnarráði Íslands og unnið í innviðaráðuneytinu og forverum þess í tuttugu ár. Hún hafi gegnt embætti skrifstofustjóra stefnumótunar og fjárlaga í innviðaráðuneytinu frá árinu 2022 og sama embætti í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu frá 2017. 

Frá 2021 hafi hún verið staðgengill ráðuneytisstjóra. Ingilín hafi verið skrifstofustjóri stefnumótunar og þróunar í innanríkisráðuneytinu á árunum 2011-2017 og skrifstofustjóri stjórnsýslu og fjármála í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu árin 2009-2011. Þá hafi hún starfað sem sérfræðingur á skrifstofu samgönguráðherra í samgönguráðuneytinu á árunum 2004-2009.

Ingilín hafi setið í ýmsum stjórnum, m.a. stjórn Neyðarlínunnar frá 2010 og stjórn Flugfjarskipta. Einnig hafi hún stýrt og átt sæti í ýmsum starfshópum og nefndum. Ingilín hafi lokið BS-prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2002 og meistaraprófi í viðskiptafræði, stjórnun og stefnumótun frá Copenhagen Business School árið 2004.

Aðalsteinn Þorsteinsson hefur verið settur ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins frá 1. maí sl. en tekur að nýju við embætti skrifstofustjóra sveitarfélaga og byggðamála í ráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×