Mohsen og Feryal Aburajab Tamimi flúðu til Íslands í júní 2023. Með þeim í för var sonur þeirra, Yazan, sem er með Duchenne vöðvarýrnunarsjúkdóm. Fjölskyldan er frá Hebron á Vesturbakkanum í Palestínu og flúði vegna versnandi ástands í landinu og aðkasts yfirvalda en einnig vegna skorts á þjónustu fyrir Yazan.
Vísa átti fjölskyldunni úr landi í síðasta mánuði en aðgerðinni var frestað að beiðni dómsmálaráðherra. Eftir það tilkynnti embætti ríkislögreglustjóra að ekki yrði farið í aðra brottvísunaraðgerð vegna þess að svo stutt væri í að fjölskyldan ætti rétt á því að umsókn þeirra yrði tekinn til efnislegrar meðferðar. Sá tímafrestur rann út 21. september, fyrir sautján dögum.
„Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig. Þegar þessi tímafrestur var liðinn þá opnaði kærunefnd málið um leið. Útlendingastofnun, þeim til hróss, boðaði þau í viðtal í morgun,“ segir Albert Björn Lúðvígsson lögmaður fjölskyldunnar.
„Þetta gerðist mjög hratt. Miklu hraðar en gengur og gerist.“
Hann segir að í öllum sambærilegum málum fólks frá Palestínu hafi þeim verið veitt vernd á grundvelli sjónarmiða um viðbótarvernd. Viðbótarvernd vísi þá til hins almenna ástands í Palestínu.
„Þetta er sú vernd sem 97 til 98 prósent Palestínufólks á Íslandi hefur fengið.“

Hann segir fyrstu viðbrögð fjölskyldunnar hafa einkennst af gleði en einnig spennufalli.
„Þau voru hrærð og þetta var tilfinningarík stund. Fyrsta viðkvæði Mohsen, föður Yazan, var að biðja mig um að hjálpa sér að semja bréf til þeirra sem hafa hjálpað þeim á Íslandi.“
Örugg á Íslandi
Hann segir fjölskylduna hafa haldið heim eftir fundinn hjá Útlendingastofnun þar sem þau ætluðu að halda upp á þetta.
„Þau eru núna örugg á Íslandi. Þau fá tveggja ára dvalarleyfi á Íslandi sem þau geta endurnýjað og standa að flestu leyti jafnfætis öðrum á Íslandi hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu.“
Albert segir það hafa farið fram úr sínum björtustu vonum hversu hratt þetta gekk fyrir sig.
„Þetta fór fram úr mínum björtustu vonum. Ég hafði vonast til þess að þetta myndi ekki taka margar vikur. Ég hafði ýtt pínulítið á kærunefnd að klára þetta sem fyrst, sem kærunefnd varð við. Ég náði svo ekki einu sinni að óska eftir því að Útlendingastofnun boðaði þau í viðtal sem fyrst því stofnunin gerði það að eigin ákvörðun. Þannig þetta gekk mjög hratt fyrir sig.“
Minni hali og færri umsóknir
Albert segir stofnunina undanfarið hafa náð að vinna sig í gegnum umsóknarhalann auk þess sem umsóknir séu færri á þessu ári en síðustu ár.
„Þetta er að sumu leyti það sem er eðlilegt. Fyrir nokkrum árum var boðað hraðar í viðtöl.“