Erlent

Bein útsending: „Óveður aldarinnar“ skellur á Flórída

Samúel Karl Ólason skrifar
Talið er að gífurleg úrkoma fylgi Milton.
Talið er að gífurleg úrkoma fylgi Milton. AP/Marta Lavandier

Fellibylurinn Milton hefur náð landi í Flórída í Bandaríkjunum. Fjölmargir hvirfilbylir hafa skollið á Flórída í dag, í aðdraganda Miltons og er búist við mikilli eyðileggingu, nái fellibylurinn landi af þeim styrk sem spár gera ráð fyrir.

Alls voru 133 hvirfilbyljaviðvaranir gefnar út í dag og hafa þær aldrei verið fleiri á einum degi í Flórída. Einn hvirfilbyljanna rústaði bílageymslu fógetans í St. Lucie.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði í dag að útlit væri fyrir að Milton yrði „óveður aldarinnar“. Norðurhluti auga Miltons náði landi á tólfta tímanum á miðvikudagskvöld og um það leyti sagði Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, að of seint væri fyrir fólk að reyna að flýja.

Yfirvöld í Flórída höfðu sagt íbúum fimmtán sýslna að flýja heimili sín en þar er um að ræða um 7,2 milljónir manna. Kraftur Miltons hefur sveiflast til og frá á undanförnum dögum en þrátt fyrir það er búist við því að honum muni fylgja gífurlega öflugar vindhviður og hækkandi sjávarstaða.

Sérfræðingar segja að þó fellibylurinn hafi misst kraft áður en auga hans náði landi muni það ekki breyta stöðuni mikið. Flóðin verið enn mikil og vindhraði gífurlegur.

Sjá einnig: Milton safnar aftur krafti

Þá er einnig búist við því að úrkoman frá Milton muni mælast allt að 46 sentímetrar.

Margar vefmyndavélar má finna í Flórída og hafa fjölmiðlar vestanhafs einnig sett upp eigin myndavélar. Hér að neðan má sjá nokkrar slíkar sem áhugasamir geta fylgst með í kvöld og í nótt.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×