Forsögulega paddan var af ætt liðdýra, þeirri sömu og krabbar og köngulær, og er sögð hafa líkst marg- og þúsundfætlum samtímans. Þær lifðu fyrir um þrjú hundruð milljónum ára þegar styrkur súrefnis í lofthjúpi jarðar var meiri en hann er nú. Sumar þeirra gátu orðið allt að tveir og hálfur metri að lengd og um fimmtíu kíló að þyngd.
Steingervingarnir sem dýrin skildu eftir sig eru hauslausar skeljar frá því að dýrin höfðu hamskipti. Því hafa vísindamenn ekki haft góða mynd af því hvernig haus þeirra leit út.
Nú hefur hópi þeirra tekist að endurgera hausinn með því að taka sneiðmyndir af steingervingum af smærri þúsundfætlum sömu gerðar sem fundust í kolajarðvegi í Frakklandi á níunda áratug síðustu aldar.
Hausinn reyndist kringlóttur með tveimur stuttum bjöllulaga fálmurum og tveimur augum sem stóðu út eins og á krabba. Munurinn var smágerður og lagaður að því að vinna á laufum og trjáberki samkvæmt grein um rannsóknina sem birtist í vísindaritinu Science Advances.
„Við uppgötvuðum að hún hafði búk þúsundfætlu en haus margfætlu,“ segir Mickael Lheritier, fornlíffræðingur við Claude Bernard Lyon-háskóla í Frakklandi, og einn höfunda greinarinnar.
Tegundin er talin stærsta liðdýrategund í sögu jarðarinnar en ekki er þó útilokað að tegund risavaxinna sæsporðdreka hafi verið örlítið stærri, að sögn AP-fréttastofunnar.